Félagið

Ás styrktarfélag veitir vinnu og virkni, búsetu og dagþjónustu

 


Ás styrktarfélag
  er sjálfseignarstofnun með þjónustu við fólk með þroskahömlun og hefur í gegnum árin komið á fót umfangsmiklum rekstri. Þá hefur félagið notið velvilja og hafa einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki átt drjúgan þátt í 

að styðja félagið til vaxtar. Í dag veitir Ás styrktarfélag  hátt á þriðja hundrað manns þjónustu í formi búsetu, dagþjónustu og vinnu. Starfsmenn félagsins eru um 350 í rúmlega 171 stöðugildi.

Tímamót urðu i málaflokknum og  í sögu félagsins þegar málaflokkurinn fluttist á ábyrgð sveitafélaga þann 1. janúar 2011.  Fyrir félagið eru þetta umtalsverðar breytingar þar sem í stað eins þjónustusamnings  eru nú gerðir samningar við hvert og eitt sveitarfélag um þann rekstur sem liggur innan marka þeirra. Samningar tryggja fjármagn til rekstursins og skipta höfuðmáli fyrir félagið til áframhaldandi þjónustu við fólk.  Í árslok 2017 eru gildir samningar við Reykjavíkurborg, Kópavogsbæ, Hafnarfjörð, Mosfellsbæ, Seltjarnarnes, Garðabæ og Landspítala Háskólasjúkrahús.  

Þó mikið hafi breyst er það engu síður mikilvægt fyrir félagið að afla eigin tekna sem nota má til nýsköpunar og verkefna.  Von er bundin við að í framtíðinni geti félagið haldið áfram að stuðla að frekari uppbyggingu í málaflokknum með sjálfsaflafé sem það aflar af sölu happdrættismiða, minningarkorta, gjöfum frá fyrirtækjum og styrktaraðilum, auk félagsgjalda frá félagsmönnum sem nú eru tæplega 700 á skrá. Stuðningur við félagið er mikilvægur til þess að það geti stuðlað að öflugu uppbyggingastarfi í málaflokknum.

Ás styrktarfélag er í góðu samstarfi við helstu þjónustuaðila. Meðal annars tekur það þátt í samstarfshópum Velferðarsviðs Reykjavíkur um atvinnu- og búsetumál fatlaðra í Reykjavík. Félagið er aðili að og á fulltrúa hjá Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands.

2015 10 14 As Logo