Lög félagsins

1. gr.

Félagið heitir Ás styrktarfélag. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna og reka þjónustu til stuðnings fólki með fötlun, sér í lagi greindarskerðingu og tengdar fatlanir. Að þessu skal unnið m.a. með því: 

 • að veita sem ákjósanlegust skilyrði til að hver og einn nái þeim þroska sem hæfileikar hans leyfa,
 • að sem flest almenn tilboð standi til boða í námi, leik og starfi,
 • að koma á fót heimilum, stofnunum og vinnustöðum fyrir þá sem þurfa, og að reka slíka staði ef ástæða er til,
 • að styðja og styrkja þá sem starfa í málaflokki fatlaðra eða vilja afla sér menntunar á þeim sviðum sem félagið leggur áherslu á hverju sinni,
 • að annast kynningu á málefnum félagsins og skjólstæðinga þess, t.d. með útgáfustarfsemi og fræðslufundum,
 • að upplýsa og aðstoða foreldra og ættingja eftir fremstu getu.


3. gr.

Félagið er öllum opið, sem stuðla vilja að framgangi allra hagsmunamála skjólstæðinga þess. Nýir félagar öðlast kosningarétt einum mánuði eftir inngöngu og kjörgengi þegar þeir hafa átt félagsaðild í eitt ár.

4. gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í marsmánuði ár hvert. Telst hann löglegur, sé boðað til hans með auglýsingu í fjölmiðlum með tveggja vikna fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar:

 • Setning. (Formaður félagsins).
 • Kosning fundarstjóra og fundarritara. (Formaður stjórnar kosningu).
 • Skýrsla stjórnar.
 • Reikningar félagsins lagðir fram.
 • Umræður um skýrslu og reikninga og reikningar bornir upp.
 • Lagabreytingar
 • Aðild að öðrum félögum eða samtökum.
 • Ákvörðun árgjalds.
 • Kosning stjórnar, varastjórnar, skoðunarmanna og uppstillingarnefndar.
 • Önnur mál. 


5. gr.

Aðalfundur félagsins kýs sjö menn í aðalstjórn og þrjá til vara. Atkvæðisrétt hafa skuldlausir félagar, sem á fundinn koma. Fastráðnir starfsmenn félagsins skulu ekki sitja í aðalstjórn og ekki heldur þeir, sem hafa setið samfellt í aðalstjórn undanfarin 9 ár fyrir aðalfund. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Ekki má sami maður gegna störfum formanns lengur en 5 kjörtímabil samfellt. Seta í aðalstjórn hefur ekki áhrif á kjörgengi til formennsku. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til þriggja ára og síðan varamenn til eins árs. Að lokum skal kjósa skoðunarmenn.

6. gr.

Í forföllum aðalstjórnarmanna taka varamenn sæti eftir atkvæðamagni. Verði það jafnt eða sé sjálfkjörið, skal dregið um röðun þeirra. Hverfi aðalmaður, sem á a.m.k. ár eftir af kjörtíma sínum, úr stjórn, skal á aðalfundi kjósa aðalmann til setu þann tíma, er sá, er brott hvarf, átti ógengt.

7. gr.

Skoðunarmenn skulu vera tveir og tveir til vara. Kjörtímabil þeirra er þrjú ár. 

8. gr.

Aðalfundur kýs þrjá félagsmenn og einn til vara í uppstillingarnefnd. Kjörtímabil þeirra er tvö ár. Hlutverk uppstillingarnefndar er að leita eftir framboðum í stjórn og varastjórn félagsins, og í embætti félagskjörinna skoðunarmanna.

9. gr.

Aðalstjórn skiptir með sér verkum varaformanns, ritara gjaldkera og meðstjórnenda á fyrsta stjórnarfundi eftir hvern aðalfund. Varamenn skal boða á alla stjórnarfundi. Varamaður hefur málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt nema hann gegni störfum aðalmanns.

10. gr.

Stjórn félagsins fer með úrskurðarvald um málefni félagsins milli aðalfunda. Skal hún að jafnaði halda stjórnarfundi mánaðarlega og auk þess, ef tveir stjórnarmenn æskja þess. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra til að sjá um daglegan rekstur félagsins. Þá getur hún falið einstökum félagsmönnum að inna af hendi störf í þágu þess og einnig skipað sérstakar nefndir í sama tilgangi. Formenn nefnda skulu gera stjórn félagsins skriflega grein fyrir störfum þeirra fyrir lok febrúar ár hvert.

11. gr.

Félagsfund skal halda þegar stjórn ákveður, eða þegar minnst 20 félagsmenn krefjast þess og skal til hans boða með auglýsingu í fjölmiðlum með minnst þriggja daga fyrirvara.

12. gr.

Framkvæmdaráð skal skipað þrem stjórnarmönnum, formanni, varaformanni og gjaldkera. Sjá þeir um undirbúning og framgang ýmissa mála milli stjórnarfunda. Framkvæmdastjóri félagsins situr fundi ráðsins.

13. gr.

Stjórnarfundur er lögmætur, sitji 4 stjórnarmenn fundinn og sé a.m.k. einn þeirra úr framkvæmdaráði. Á fundum stjórnar og framkvæmdaráðs ræður afl atkvæða um þær ákvarðanir sem teknar eru. Eigi má ráðstafa fasteignum félagsins nema a.m.k. 3/4 hlutar stjórnarinnar samþykki það á stjórnarfundi.

14. gr.

Árgjald greiðir hver félagsmaður og skal stjórn félagsins leggja fram tillögu um upphæð þess til aðalfundar. Stjórn félagsins skal ætíð stuðla að fjölgun félagsmanna og þá sérstaklega meðal þeirra foreldra og aðstandenda, sem njóta þjónustu hjá félaginu. 

15. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Skal gjaldkeri stjórnar leggja fram fullgerða reikninga félagsins á síðasta stjórnarfundi fyrir aðalfund, undirritaða bæði af löggiltum endurskoðendum og félagskjörnum skoðunarmönnum.

16. gr.

Samþykki stjórnarfundar og síðan 2/3 hluta greiddra atkvæða aðalfundar þarf til að félagið verði lagt niður. Verði það samþykkt, skal eigum þess ráðstafað í þágu skjólstæðinga þess, samkvæmt nánari ákvörðun þess aðalfundar. Taka skal sérstaklega fram í fundarboði, ef tillaga um slíkt liggur fyrir aðalfundi.

17. gr.

Tillögu um aðild að eða úrsögn úr félögum eða samtökum skal bera upp á aðalfundi. Tillagan skal berast skriflega til skrifstofu félagsins mánuði fyrir aðalfund og geta skal hennar í fundarboði.

18. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Breytingartillögur þurfa að berast skriflega til skrifstofu félagsins mánuði fyrir aðalfund. Í fundarboði skal geta þess sérstakleg að lagabreytingar verði á dagskrá aðalfundar og þær liggi frammi á skrifstofu félagsins. Efni tillögu um lagabreytingu er til samþykktar eða synjunar á aðalfundi.

Ákvæði til bráðabirgða:

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 5. gr. skulu þeir, sem sátu í aðalstjórn starfsárið 1999 til 2000, halda kjörgengi til formennsku og annarra stjórnarstarfa. Breytingar þessar öðlast gildi nú þegar, nema breytingar á 3. gr, sem taka fyrst gildi við kjör stjórnar árið 2001.