Nýir samningar við Eflingu

Þann 22. mars síðastliðinn var haldinn kynningarfundur á kjarasamningi við Eflingu sem gildir fyrir fatlaða starfsmenn. Fundurinn var ætlaður fyrir starfsmenn Áss, Bjarkaráss, starfsfólk og aðstandendur. Fulltrúar Eflingar kynntu samninginn auk þess sem fulltrúi frá Styrktarfélaginu kynnti starfsmat sem verið er að vinna með hliðsjón af samningnum. Vel var mætt á fundinn og var almenn ánægja með nýja samninginn. Ljóst er að um talsverða kjarabót er að ræða og sýnt að þessi samningur er enn eitt skrefið í átt til aukins réttar fólks með fötlun að betri lífsgæðum. Með samningnum öðlast starfsmaður rétt á lífeyrisgreiðslum og orlofi auk þess að hann hefur möguleika á því að sækja öll þau námskeið sem í boði eru á vegum Eflingar til aukinnar menntunnar. Þar að auki öðlast hann rétt til að nýta sér öll þau orlofsúrræði sem í boði eru, hvort sem um sumarhús til leigu er að ræða, eða húsnæði í eigu félagsins á erlendri grund, að uppfylltum þeim skilyrðum sem þurfa til umsóknar vegna þeirra. Nokkuð vel gekk að kynna samninginn fyrir gestum fundarins og það leyndi sér ekki að mikill áhugi var fyrir honum, ef marka má mætinguna og umræðurnar sem sköpuðust á fundinum. Ef allt gengur upp eru líkur á því að borgað verði út samkvæmt nýjum kjarasamningi þann 1. maí næstkomandi.

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.