Námsferð starfsfólks Bjarkaráss til Frankfurt

Námsferð frá Bjarkarási í maí 2007

 

Um áramótin kom upp sú hugmynd innan starfsmannahóps Bjarkaráss að fara í námsferð út fyrir landssteinana.  Strax var hafist handa við að afla fjár til ferðarinnar og voru ýmsar leiðir farnar.  Sem dæmi má nefna sultugerð, kökubasar, bingo og tannkremssölu. Einnig voru send bréf með óskum um styrki til fjölmargra aðila.  Eftirtaldir styrktu okkur með rausnarlegum peningaupphæðum; Össur, S.P.Fjármögnun, KB banki, Félagsmálaráðuneytið, Styrktarfélag vangefinna og Hlutverk, samtök um vinnu og verkþjálfun.

Þann 17. maí fór svo 17 manna hópur í námsferð til Frankfurt í Þýskalandi.  Tilgangur ferðarinnar var að skoða þjónustu við fatlað fólk á þeim slóðum.  Við skoðuðum tvo staði, annars vegar vinnustað og hins vegar heimili.  Vinnustaðurinn heitir Reha-Werkstatt Oberrad og þar vinna um 100 manns, að stærstum hluta geðfatlað fólk.  Starfsemin þar er margþætt, m.a. er mikið um ýmiskonar tölvuvinnu, samsetningarverkefni fyrir bílaiðnaðinn og samsetningar á rafmagnsvörum. Einnig eru þar starfræktir hópar á ýmsum sviðum iðngreina sem taka að sér verkefni úti í bæ.  Má þar nefna málningarvinnu, lagningu gólfefna, húsgagnasmíði og fleira.  Járnsmiðja er einnig á staðnum þar sem meðal annars eru framleiddir loftræstistokkar.  Þessi vinnustaður ásamt öðrum, rekur verslun í miðbæ Frankfurt þar sem seldar eru vörur framleiddar hjá þeim. Yfirmenn vinnustaðarins tóku mjög vel á móti okkur og fræddu okkur um rekstrarlegan bakgrunn og umfang dagþjónustu í borginni.

Heimilið sem við skoðuðum var fjögurra manna íbúð í mjög stóru fjölbýlishúsi í eigu borgarinnar.  Bærinn hefur sett þau markmið að í húsinu búi breiður hópur fólks og eru íbúðirnar ýmist á almennum leigumarkaði eða niðurgreiddar af félagsmálayfirvöldum.  Íbúðin sem við skoðuðum var ein af átta sem fengu þjónustu hjá sama starfsmannahópi.  Að auki voru 12 íbúðir annars staðar í húsinu, en þar býr fólk sem þarf minni aðstoð, ekki ólíkt frekari liðveislu.  Þjóðverjarnir voru mjög ánægðir með þetta fyrirkomulag sem er nýtt hjá þeim.

Einn frídagur var hjá ferðalöngunum og fóru flestir til Heidelberg og skoðuðu sig um þar í blíðskaparveðri.

Ferðin var í alla staði vel heppnuð og verður lengi í minnum höfð.  Við þökkum hér með öllum þeim sem styrktu okkur til fararinnar.

 Fyrir hönd starfsmanna Bjarkaráss,

Þórhildur Garðarsdóttir og Valgerður Unnarsdóttir

Frankfurt 2

 

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.