Starfsdagar í Bjarkarási

 

Starfsdagar í Bjarkarási
22. - 26. apríl 2009

Leiðbeinendur í Bjarkarási ætla að bregða sér af landi brott á starfsdögum í apríl. Ferðinni er heitið til Boston, USA og hefur hópurinn safnað fyrir ferðinni síðustu tvö ár með ýmsu móti eins og mörg ykkar kannast við. Haldnir voru kökubasarar og bingó, seldar sultur og ostabakkar svo eitthvað sé nefnt. Einnig fengust rausnarlegir styrkir frá Bakkavör og Hlutverki til fararinnar. Samgöngur til Bandaríkjanna eru með þeim hætti að loka þarf Bjarkarási á hádegi miðvikudaginn 22. apríl en starfsemin hefst aftur mánudaginn 27. apríl.

Dagskráin í Boston verður þannig að á sumardaginn fyrsta verður farið til Waltham, sem er nágrannabær Boston. Þar fá ferðalangar kynningu á starfsemi GWARC.inc sem er sambærilegt félag við Ás styrktarfélag. Það er stofnað og rekið af foreldrum fatlaðs fólks og hefur margs konar starfsemi á sínum höndum. Þeir hafa skipulagt góðar móttökur þar sem hópurinn hittir meðal annarra bæjarstjórann og fjölmiðlafólk.

Á föstudeginum verður farið í fyrirtæki sem heitir Essence of Thyme and giftshop þar sem rekið er kaffihús og gjafaverslun sem vinnu- og þjálfunarstaður fyrir fatlað fólk. Laugardagurinn og sunnudagurinn eru frjálsir og geta ferðalangar þá kynnst betur menningu og sögu Bostonborgar eða átt viðskipti við innlenda fatakaupmenn.

Starfsmenn mæta svo til vinnu á mánudagsmorgni, ferskir og vonandi með góðar hugmyndir í farteskinu.

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.