Alþjóðadagur fatlaðra 3. desember 2011

Verið velkomin á fjölskylduhátíð og afhendingu
Múrbrjóta  laugardaginn 3.desember
 

Kæru vinir.
3. desember er Alþjóðadagur fatlaðs fólks. Í tilefni af því bjóða Landssamtökin Þroskahjálp, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, og Ás styrktarfélag  ykkur að koma, njóta og gleðjast saman í tilefni dagsins með fjölskyldu og vinum.
 Fjölskyldugleðin fer fram í húsnæði  Æfingarstöðvarinnar,  Háaleitisbraut 13 og í húsnæði Lyngáss í Safamýri  5 Dagskráin hefst á Háaleitisbraut með afhendingu Múrbrjóta  Landsamtakanna Þroskahjálpar  klukkan 10:30, en Múrbrjótur samtakanna er veittur þeim sem hafa með framlagi sínu brotið niður múra sem oft umlykja málefni fatlaðs fólks.Í kjölfarið verður allskonar húllumhæ í boði, skemmtileg atriði og ljúffengar veitingar til klukkan 13:30.
Í boði verða fjölbreyttir hreyfisalir með þrautabrautum , skoppandi boltafjör í íþróttasal, krakkajóga með jógakennaranum Evu Rún Þorgeirsdóttur, sérstakt krílarými fyrir minnstu börnin, myndlistasmiðja þar sem gera má lítil ljósker fyrir sprittkerti, búningahorn með skapandi búningum frá Fafu, hjólastóla-hreyfibraut og tækifæri til að  upplifa skynjunarherbergið á Lyngási.
 Margt  yndislegt  listafólk ætlar að gleðja okkur með sköpun sinni. Þar á meðal eru þeir Jónsi og Alex Somers sem saman mynda Riceboy Sleeps. Þeir voru spurðir hvort þeir gætu samið lítið tónverk sérstaklega fyrir skynjunarrýmið á Lyngási. Þeim datt þá strax í hug lag, sem þeir eiga tilbúið, og  þótti smellpassa inn í rýmið. Lagið er Boy1904 sem einnig hefur verið notað í kynningu fyrir Special Olympics.

Fleiri góðir gestir ætla að gleðja okkur t.a.m. hún Ugla Egilsdóttir leikkona sem les upp úr nýútkominni bók Áslaugar Ýrar Hjartardóttur ”Undur og örlög”. Eva María Jónsdóttir kemur ásamt dætrum sínum sem kveða sagnadansa úr bókinni  ”Dans vil ég heyra” eftir þau Evu Maríu og Óskar Jónasson og Ólíver Tumi, 6 ára, les sögu úr smásagnasafni sem hann gaf út nú í nóvember til styrktar Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Glaðbeittir trúðar úr fjölskyldusöngleiknum Sarínó sirkusnum ætla svo að kæta gesti, smáa og stóra, með söng og sprelli. Það eru þau Sigríður Eyrún Friðriksdóttir leikkona og Gunnar Þorgrímur Þorkelsson sem fela sig á bak við rauðu trúðanefin.  Jólaandinn svífur yfir vötnum og jólalegar veitingar verða í boði fyrir gesti og gangandi. Með kærleikskveðju og von um að sjá sem flesta  gleðjast með okkur á þessum hátíðisdegi, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Landssamtökin Þroskahjálp, Ás Styrktarfélag.

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.