Vinna/virkni

Í dag veitir Ás styrktarfélag um 185 manns þjónustu í formi vinnu og virknitilboða. Félagið hefur ávallt kappkostað að vera í fremstu röð varðandi gerð og gæði þessarar þjónustu, að hún samræmist þeim viðmiðum sem eðlileg þykja. Er þá sérstaklega lögð áhersla á jöfn tækifæri og virðingu fyrir getu hvers einstaklings.

 

Athugið að nú má nálgast kynningarmyndbönd um nokkra vinnu- og virknihópa með því að smella á Virkni hópar hér til hliðar og síðan á hvern hóp fyrir sig. Stefnt er á að gera kynningarmyndbönd fyrir alla hópana.

 

Heildarstefna Áss styrktarfélags miðar að því að öll dagþjónusta fullorðinna sé vinna og hafi gildi sem slík. Ráðist var í að gera grunnbreytingar á því fyrirkomulagi sem hefur verið í gildi síðustu áratugi með þessa hugsun að leiðarljósi. Breytingaferlið hófst 8. febrúar 2011 og lauk 31. desember 2015.

 

Áhersla er lögð á að auka fjölbreytni og forðast stöðnun innan vinnustaða. Fólk á nú möguleika á að starfa með ólíkum einstaklingum á mismunandi aldri við ný og spennandi verkefni. Byrjað var að vinna eftir nýju skipulagi í febrúar 2013 og eiga allir þess kost að velja sér rafrænt allt að fimm vinnu og virknitilboð í senn. Hægt er að velja um launaða vinnu og virkni eða ólaunaða, í sumum tilfellum þurfa þátttakendur að greiða tilfallandi kostnað.

 

Allir leiðbeinendur eru nú ráðnir óstaðbundið í vinnu og virkni hjá Ási styrktarfélagi og geta því fylgt starfsfólki með fötlun þangað sem þeirra er þörf. Eftir sem áður eiga allir fatlaðir starfsmenn ákveðna heimastöð.

 

Nálgast má myndræna kynningu á þessu nýja fyrirkomulagi á heimasíðu Áss styrktarfélags HÉRNA.

 

Athygli er vakin á því að þetta val stendur eingöngu þeim til boða sem eru í eða hefur verið úthlutað vinnu og virkni hjá Ási styrktarfélagi. Sótt er um hjá Vinnumálastofnun.