Vinna/virkni

Í dag veitir Ás styrktarfélag rúmlega 200 manns þjónustu í formi Vinnu og virkni. Félagið hefur ávallt kappkostað að vera í fremstu röð varðandi gerð og gæði þessarar þjónustu, að hún samræmist þeim viðmiðum sem eðlileg þykja. Er þá sérstaklega lögð áhersla á jöfn tækifæri og virðingu fyrir getu hvers einstaklings.

 

Athugið að nú má nálgast kynningarmyndbönd um nokkra vinnu- og virknihópa með því að smella á Virkni hópar hér til hliðar og síðan á hvern hóp fyrir sig. 

 

Heildarstefna Áss styrktarfélags miðar að því að öll dagþjónusta fullorðinna sé vinna og hafi gildi sem slík. Ráðist var í að gera grunnbreytingar á því fyrirkomulagi sem hefur verið í gildi síðustu áratugi með þessa hugsun að leiðarljósi. Breytingaferlið hófst 8. febrúar 2011 og lauk 31. desember 2015.

 

Áhersla er lögð á að auka fjölbreytni og forðast stöðnun innan vinnustaða. Fólk á nú möguleika á að starfa með ólíkum einstaklingum á mismunandi aldri við ný og spennandi verkefni. Allir eiga þess kost að velja sér rafrænt allt að fimm vinnu- og virknitilboð í senn. Hægt er að velja um launaða vinnu og virkni eða ólaunaða, í sumum tilfellum þurfa þátttakendur að greiða tilfallandi kostnað. Valið fer fram tvisvar sinnum á ári, í nóvember og maí.

 

Allir leiðbeinendur eru ráðnir óstaðbundið í vinnu og virkni hjá Ási styrktarfélagi og geta því fylgt starfsfólki með fötlun þangað sem þeirra er þörf. Eftir sem áður eiga allir fatlaðir starfsmenn ákveðna heimastöð.

 

Athygli er vakin á því að þetta val stendur eingöngu þeim til boða sem eru í eða hefur verið úthlutað vinnu og virkni hjá Ási styrktarfélagi. Sótt er um hjá Vinnumálastofnun.

 

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.